Vongóðir um að Hudson-Odoi hafni Bayern

Hudson-Odoi var í byrjunarliði Chelsea gegn Tottenham.
Hudson-Odoi var í byrjunarliði Chelsea gegn Tottenham. AFP

Framtíð knattspyrnumannsins Callum Hudson-Odoi kemur í ljós á næstu dögum. Forráðamenn Chelsea eru vongóðir um að hann hafni Þýskalandsmeisturum Bayern München og skrifi undir nýjan fimm ára samning við enska félagið. BBC greinir frá. 

Bayern er reiðubúið að borga 35 milljónir punda fyrir Hudson-Odoi. Sóknarmaðurinn fékk nánast ekkert að spila með Chelsea fyrir áramót og vildi hann því yfirgefa félagið og fara til Þýskalands. Hann hafnaði samningstilboði Chelsea fyrir tímabilið. 

Hudson-Odoi hefur fengið stærra hlutverk með Chelsea á nýju ári og er félagið tilbúið að hækka laun hans töluvert. Leikmaðurinn hefur aðeins spilað 13 leiki fyrir liðið, en hann gæti þénað 70.000 pund á viku, skrifi hann undir nýjan samning við uppeldisfélagið. 

Jadon Sancho og Hudson-Odoi urðu heimsmeistarar með enska U17 ára landsliðinu árið 2017. Sancho fór til Dortmund fyrir leiktíðina, þar sem hann fékk ekkert að spila með Manchester City. Sancho hefur slegið í gegn og spilaði hann sinn fyrsta A-landsleik á dögunum.

Bayern er búið að lofa Hudson-Odoi treyju númer 10, þar sem Arjen Robben mun láta hana af hendi eftir leiktíðina. Freistingarnar eru því til staðar hjá Bayern, en forráðamenn Chelsea eru vongóðir á að hann verði áfram á Stamford Bridge, með fleiri tækifærum í liðinu og stórum samningi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert