Scholes að fá fyrsta stjórastarfið

Paul Scholes lék með Manchester United allan ferilinn.
Paul Scholes lék með Manchester United allan ferilinn. AFP

Paul Scholes er líklegastur til að taka við sem knattspyrnustjóri enska D-deildarliðsins Oldham. Scholes er þegar búinn að ræða við Abdallah Lemsagam, eiganda félagsins, og hefur fengið samningstilboð í hendurnar. 

Fari svo að Scholes taki við Oldham mun hann að öllum líkindum selja sinn hlut í Salford City sem leikur í E-deildinni, efstu utandeildinni. Pete Wild hefur stýrt Oldham að undanförnu eftir að Frankie Bunn var rekinn á jóladag. 

Wild mun stýra liðinu í enska bikarnum gegn Doncaster á laugardag, en Oldham sló úrvalsdeildarlið Fulham úr leik í þriðju umferð. Scholes hefur ávallt verið stuðningsmaður Oldham og kom hann til greina sem stjóri liðsins í október 2017, en þá var Richie Wellens ráðinn. 

Oldham er í 12. sæti D-deildarinnar, fimm stigum frá sæti í umspili um sæti í C-deildinni, en liðið féll á síðustu leiktíð. Scholes lék allan sinn feril með Manchester United og varð enskur meistari ellefu sinnum og Evrópumeistari tvisvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert