Fyrsta landsliðskall Hudson-Odoi

Callum Hudson-Odoi hefur verið kallaður inn í enska landsliðið.
Callum Hudson-Odoi hefur verið kallaður inn í enska landsliðið. AFP

Callum Hudson-Odoi, leikmaður Chelsea, hefur verið kallaður inn í enska landsliðið í knattspyrnu fyrir fyrstu leiki liðsins í undankeppni Evrópumótsins 2020.

Hudson-Odoi er 18 ára gamall, en þetta er í fyrsta sinn sem hann er kallaður inn í aðalliðið. Áætlað var að hann yrði í verkefni með U21 árs landsliði Englands, en landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate kallaði hann frekar til sín.

Hudson-Odoi hefur spilað 19 leiki með Chelsea á tímabilinu og skorað fimm mörk, en hefur engu að síður ekki verið í byrjunarliðinu í úrvalsdeildinni.

Englendingar hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum en Luke Shaw, John Stones, Fabian Delph og Ruben Loftus-Cheek hafa allir þurft að draga sig úr hópnum.

England mætir Tékklandi á föstudag og Svartfjallalandi á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert