Gylfi maður leiksins í stórsigrinum á United

Gylfi fagnar hér glæsimarki sínu á Goodison Park í dag.
Gylfi fagnar hér glæsimarki sínu á Goodison Park í dag. AFP

Fjölmiðlar á Englandi keppast við að lofa Gylfa Þór Sigurðsson eftir að hann átti stórleik í 4:0-sigri Everton á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hér rétt áðan.

Gylfi skoraði sjálfur glæsilegt annað mark Everton í fyrri hálfleik með hnitmiðuðu skoti utan teigs áður en hann lagði upp fjórða markið í stórsigrinum en þetta var einn besti leikur Everton í mörg ár. Þá var hann valinn maður leiksins af bæði BBC og Sky Sports en hann var allt í öllu í leik heimamanna.

Gylfi átti 54 snertingar, 11 fyrirgjafir og þá bjó hann til fjögur færi fyrir samherja sína en Theo Walcott skoraði úr einu þeirra. Gylfi skoraði svo úr einu af tveimur skotum sínum en hann hefur nú skorað fimm mörk á ferlinum gegn United, meira en gegn nokkru öðru liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert