Hélt að þetta væri grín

Sepp van den Berg.
Sepp van den Berg. Ljósmynd/Liverpool

Liverpool er búið að semja við Sepp van den Berg, 17 ára gamlan varnarmann frá Hollandi sem kemur til liðsins frá Zwolle.

Liverpool greiðir 1,3 milljónir punda fyrir Van den Berg en sú upphæð getur hækkað upp í 4,4 milljónir punda við tiltekinn fjölda leikja hans með liðinu.

Van den Berg, sem spilar í stöðu miðvarðar, þykir mikið efni og voru lið eins og Ajax og Bayern München á höttunum eftir honum.

„Þetta er ótrúleg tilfinning. Ég trúði þessu ekki og hélt að þetta væri grín þegar ég heyrði af áhuga Liverpool að fá mig. Ég var svolítið skelkaður til byrja með þegar ég vissi að svona stórt félag hefði áhuga á mér. Fyrir mér er Liverpool stærsta félag í heimi og draumur minn er að rætast,“ sagði Hollendingurinn eftir að hafa skrifað undir samninginn við Liverpool.

Van den Berg kom við sögu í 15 leikjum með Zwolle í hollensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert