Milner ekkert heyrt frá Liverpool

James Milner verður samningslaus næsta sumar.
James Milner verður samningslaus næsta sumar. AFP

James Milner, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verður samningslaus hjá félaginu næsta sumar. Milner er orðinn 33 ára gamall en hann getur byrjað að ræða við önnur lið í janúar á næsta ári ef ekkert breytist. Honum hefur ekki enn þá verið boðinn nýr samningur hjá félaginu en leikmaðurinn greindi sjálfur frá þessu í samtali við enska fjölmiðla.

„Ég ræddi við félagið eftir síðasta tímabil og spurði einfaldlega hvort þeir væru tilbúnir að setjast að samningaborðinu og félagið hafði ekki áhuga á því á þeim tímapunkti. Ég hef ekkert heyrt frá forráðamönnum félagsins síðan og það er staðan. Mér líður mjög vel hérna og ég hef mikinn áhuga á því að framlengja við félagið.“

„Þetta er hins vegar undir Liverpool komið og það eina sem ég get gert er að einbeita mér að því að spila fótbolta,“ sagði Milner. Miðjumaðurinn kom til Liverpool frá Manchester City á frjálsri sölu, sumarið 2015, en Milner hefur spilað 177 leiki fyrir félagið í öllum keppnum en hann hefur verið varafyrirliði liðsins undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert