Segist ekki vera á förum frá Tottenham

Toby Alderweireld á von á því að vera áfram í …
Toby Alderweireld á von á því að vera áfram í herbúðum Tottenham á næstu leiktíð. AFP

Toby Alderweireld, varnarmaður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, segist ekki vera á förum frá félaginu í sumar. Miðvörðurinn er orðinn 30 ára gamall en hann hefur reglulega verið orðaður við brottför frá Tottenham frá því hann kom til félagsins frá Atlético Madrid sumarið 2015.

Hann var nálægt því að fara til Manchester United síðasta sumar en Belginn er með klásúlu í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið fyrir 25 milljónir evra í sumar. Sú klásúla verður hins vegar óvirk á fimmtudaginn og eins og staðan er í dag er fátt sem bendir til þess að Alderweireld sé á förum.

„Ég á von á því að vera áfram hjá félaginu á næstu leiktíð,“ sagði varnarmaðurinn í samtali við Sky Sports á dögunum. „Mér líður mjög vel í London og hjá Tottenham og það eina sem ég er að hugsa um þessa stundina er að vera í sem bestu standi þegar úrvalsdeildin hefst í ágúst,“ sagði Alderweireld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert