Ungstirnið í Barcelona fékk spænskan ríkisborgararétt

Ansu Fati.
Ansu Fati. AFP

Ansu Fati, nýja ungstirnið hjá Spánarmeisturum Barcelona í knattspyrnu fékk í dag spænskan ríkisborgararétt og er þar með orðinn gjaldgengur að spila með landsliði Spánar.

Fati, sem er 16 ára gamall, er fæddur í Afríkuríkinu Guinea-Bissau en hann var sjö ára gamall þegar hann flutti til Spánar. Hann var í unglingaliði Sevilla en fór í akademíu Barcelona-liðsins tíu ára gamall og skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning við Katalóníuliðið í sumar.

Fati hóf feril sinn með aðalliði Barcelona í sumar og í ágúst varð hann yngsti leikmaður félagsins í sögunni  til að skora í spænsku 1. deildinni og í vikunni var hann yngsti leikmaður Barcelona frá upphafi til að spila í Meistaradeildinni.

Fati gæti klæðst spænska landsliðsbúningnum í fyrsta skipti í næsta mánuði en Spánverjar taka þátt í heimsmeistaramóti U17 ára landsliðs sem haldið verður á Spáni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert