Sá besti hrósar Mané í hástert

Sadio Mané var á skotskónum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni …
Sadio Mané var á skotskónum gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í gær. AFP

Lionel Messi, besti knattspyrnumaður heims í dag, hrósaði Sadio Mané, sóknarmanni Liverpool, mikið í viðtali á dögunum. Messi hampaði Gullboltanum í sjötta sinn á ferlinum á dögunum á árlegri verðlaunaafhendingu France Football í París en enginn hefur oftar verið valinn besti knattspyrnumaður heims en argentínski snillingurinn.

Mané, sem varð Evrópumeistari með Liverpool á síðustu leiktíð hafnaði í fjórða sæti í kjörinu á eftir þeim Cristiano Ronaldo og liðsfélaga sínum Virgil van Dijk sem varð í öðru sæti. „Það var ákveðin synd að sjá Mané endaði í fjórða sæti,“ sagði Messi í samtali við franska fjölmiðilinn Canal+.

„Það voru margir frábærir knattspyrnumenn sem sköruðu fram úr í ár og þess vegna var erfitt að velja einhvern einn en Mané er leikmaður sem ég hef alltaf verið mjög hrifinn af. Hann átti frábært tímabil með Liverpool og hann hefur sýnt það og sannað á undanförnum árum að hann er í hópi bestu leikmanna heims,“ bætti Messi við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert