Klopp er hættur að fagna mörkum

Jür­gen Klopp
Jür­gen Klopp AFP

Jür­gen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segist vera hættur að fagna mörkum á hliðarlínunni vegna VAR-myndbandsdómgæslunnar en mark var dæmt af lærisveinum Þjóðverjans í 2:0-sigri á Watford í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Senegalinn Sadio Mané skallaði boltann í netið snemma í síðari hálfleik eftir fyrirgjöf Xherdans Shaqiris en markið var dæmt af þar sem Mané var rangstæður, þótt tæpt væri það. Klopp var ekki ósáttur við dóminn sjálfan en segist hættur að fagna mörkum, ef svo skyldi fara að þau væru dæmd ógild.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvort hann var rangstæður. Ég fagna ekki lengur mörkum því nú þarf að bíða eftir að einhver segi að mörkin séu góð og gild,“ sagði Klopp í viðtali við Sky Sports eftir leikinn í gær.

„Ég hélt kannski að einhver annar hefði verið rangstæður í aðdraganda marksins en ég gat ekki séð að Sadio væri fyrir innan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert