Tottenham án sigurs í síðustu fjórum leikjum

Gerard Deulofeu í baráttunni við Serge Aurier á Vicarage Road …
Gerard Deulofeu í baráttunni við Serge Aurier á Vicarage Road í dag. AFP

Watford og Tottenham skildu jöfn, 0:0, á Vicarage Road í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu rétt í þessu. Tottenham hefur nú spilað fjóra deildarleiki í röð án sigurs og er sem stendur átta stigum frá Meistaradeildarsæti.

Tottenham fór þó vel af stað í dag og pressaði nokkuð stíft á heimamenn sem hafa leikið vel undanfarið og tekið 13 stig úr síðustu fimm leikjum sínum. Erik Lamela og Son Heung-min voru meðal þeirra sem brenndu af færum fyrir gestina í fyrri hálfleik en eftir hlé snerist taflið við.

Troy Deeney og Ismaila Sarr fengu báðir kjörin færi til að brjóta ísinn snemma í síðari hálfleik en skutu báðir rétt framhjá. Watford fékk svo vítaspyrnu á 69. mínútu þegar Jan Vertonghen handlék knöttinn í eigin vítateig. Deeney brást hins vegar bogalistin og Paulo Gazzaniga varði frá honum í marki Tottenham.

Liðin urðu því að lokum að sættast á markalaust jafntefli og er Tottenham sem fyrr segir nú átta stigum frá fjórða sætinu en liðið er í 7. sæti með 31 stig. Watford er í 16. sæti með 23 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti.

Watford 0:0 Tottenham opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert