Dramatík í lokin þegar Newcastle stal jafntefli og Aston Villa sigri

Kevin De Bruyne miðjumaður Manchester City reynir skot að marki …
Kevin De Bruyne miðjumaður Manchester City reynir skot að marki Sheffield United í leiknum í kvöld. AFP

Gríðarleg dramatík var í lok tveggja leikja í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld þar sem Newcastle skoraði tvö mörk í uppbótartíma á Goodison Park og Aston Villa knúði fram dýrmætan sigur.

Everton, án Gylfa Þórs Sigurðssonar sem er meiddur, virtist vera að sigla heim afar öruggum sigri á Newcastle eftir að hafa komist í 2:0 með mörkum frá Moise Kean og Dominic Calvert-Lewin. Það var komið fram á þriðju mínútu í uppbótartíma þegar Florian Lejeune minnkaði muninn fyrir Newcastle og hann náði að skora aftur áður en flautað var af, 2:2. Liðin eru í 12. og 13. sæti, bæði með 30 stig.

Aston Villa stöðvaði sigurgöngu Watford og vann 2:1 á Villa Park en þar skoraði Ezri Konsa sigurmarkið í uppbótartímanum. Aston Villa komst úr fallsæti og í 16. sætið með 25 stig en Watford féll niður í fallsæti á ný með 23 stig í 19. sæti.

Manchester City minnkaði forskot Liverpool á toppi deildarinnar í þrettán stig í kvöld með því að sigra Sheffield United á útivelli, 1:0. Sergio Agüero skoraði sigurmarkið á 73. mínútu, nýkominn inn á sem varamaður, eftir sendingu frá Kevin De Bruyne. City er þá komið með 51 stig en Liverpool er með 64 stig og á tvo leiki til góða. Sheffield United er í 7. sæti með 33 stig.

Bournemouth lagði Brighton 3:1 í miklum fallslag á suðurströndinni og lyfti sér upp í 18. sætið með 23 stig. Brighton er í 15. sætinu með 25 stig og fallbaráttan harðnaði til muna með úrslitum kvöldsins.

Southampton heldur áfram að klífa töfluna og vann góðan útisigur á Crystal Palace í London, 2:0. Liðið er nú komið upp í níunda sæti deildarinnar með 31 stig en Palace er með 30 stig í 11. sætinu.

Úrslitin í kvöld: 

Aston Villa - Watford 2:1
Douglas Luiz 68., Ezri Konsa 90. -- Troy Deeney 38.

Bournemouth - Brighton 3:1
Harry Wilson 37., sjálfsmark 40., Callum Wilson 77. -- Aaron Moy 80.

Crystal Palace - Southampton 0:2
Nathan Redmond 22., Stuart Armstrong 48.

Everton - Newcastle 2:2
Moise Kean 29., Dominic Calvert-Lewin 54. -- Florian Lejeune 90., 90.

Sheffield United - Manchester City 0:1
Sergio Agüero 73.

Leikur Chelsea og Arsenal hefst kl. 20.15 og fylgst er með honum hér.

Enski boltinn í beinni opna loka
kl. 90 MARK - 2:2 - Everton - Newcastle! Newcastle jafnar á sjöttu mínútu uppbótartímans!!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert