Fyrsta sinn í 19 ár hjá Manchester United

Phil Jones (t.h.) fagnar marki sínu á Prenton Park í …
Phil Jones (t.h.) fagnar marki sínu á Prenton Park í dag. AFP

Manchester United er búið að skora fimm mörk í fyrri hálfleik í fyrsta sinn síðan 2001 en þetta er líka í fyrsta sinn sem United skorar fimm mörk yfir höfuð í 13 mánuði.

United er að spila við C-deildarlið Tranmere Rovers í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu og er staðan 5:0 í hálfleik en þeir Harry Maguire, Diogo Dalot, Jesse Lingard, Phil Jones og Anthony Martial hafa skorað mörkin.

Liðið skoraði síðast fimm mörk í fyrsta leiknum undir stjórn knattspyrnustjórans Ole Gunnar Solskjær í desember 2018 er liðið vann Cardiff, 5:1. Við tók ótrúlegur sprettur þar sem United vann átta leiki í röð og var ósigrað í 12 í öllum keppnum en þessi sigurganga varð til þess að Norðmaðurinn fékk starfið hjá United til frambúðar. Verr hefur þó gengið upp á síðkastið og Solskjær verið undir talsverðri pressu en United tapaði óvænt og illa gegn Burnley á heimavelli í úrvalsdeildinni um síðustu helgi og er í 5. sæti deildarinnar.

Þá er Manchester United búið að skora fimm mörk í fyrri hálfleik í fyrsta sinn síðan árið 2001 er United lék þann leik gegn Arsenal í frægum 6:1-sigri en það var akkúrat Solskjær sjálfur sem skoraði fimmta og síðasta markið fyrir hálfleik þann dag.

Ole Gunnar Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert