Lykilmaður framlengir hjá City

Fernandinho við undirskriftina í dag ásamt fjölskyldu sinni.
Fernandinho við undirskriftina í dag ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/@ManCity

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Fernandinho hefur framlengt samning sinn við Englandsmeistara Manchester City en þetta staðfesti félagið á heimasíðu sinni í dag. Fyrrverandi samningur miðjumannsins átti að renna út í sumar en nú er ljóst að hann verður áfram hjá félaginu.

Það stefndi allt í að leikmaðurinn, sem hefur verið fyrirliði City á tímabilinu, myndi yfirgefa England í sumar en hann hefur spilað sem miðvörður á tímabilinu í fjarveru lykilmanna á borð við Aymeric Laporte.

Fernandinho kom til City frá Shakhtar Donetsk sumarið 2013 en City borgaði í kringum 36 milljónir punda fyrir hann. Miðjumaðurinn á að baki 299 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 23 mörk og lagt upp önnur 25.

Fernandinho verður 35 ára gamall í maí á þessu ári en hann hefur þrívegis orðið Englandsmeistari með City, einu sinni bikarmeistari og fjórum sinnum deildabikarmeistari. Hann á að baki 53 landsleiki fyrir Brasilíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert