Komnir í enn einn úrslitaleikinn þrátt fyrir tap

Manchester City er komið í sinn þriðja úrslitaleik í röð í enska deildabikarnum í knattspyrnu og freistar þess að vinna hann í fimmta sinn á sjö árum þrátt fyrir 0:1 ósigur gegn Manchester United í seinni undanúrslitaleiknum á Etihad-leikvanginum í kvöld.

Það verða því Manchester City og Aston Villa sem mætast í úrslitaleiknum á Wembley eftir rúman mánuð, sunnudaginn 1. mars.

Manchester City er með þessum sigri þriðja liðið til að leika þrjú ár í röð til úrslita um deildabikarinn. Nottingham Forest gerði það fyrst árin 1978 til 1980 og Liverpool lék fjóra úrslitaleiki í röð 1981 til 1984 og vann þá alla.

City hóf leikinn með 3:1 forskot úr fyrri leiknum á Old Trafford en sótti nær allan fyrri hálfleikinn og David de Gea varði tvívegis mjög vel í marki United. Það var hins vegar Nemanja Matic sem kom United yfir, 1:0, á 35. mínútu með föstu skoti úr vítateignum eftir að Fred tók aukaspyrnu frá vinstri og varnarmaður skallaði til hliðar.

Þar með munaði aðeins einu marki á liðunum og staðan 3:2 samanlagt Manchester City í hag.

City var líklegri aðilinn til að skora lengst af í seinni hálfleiknum og fékk algjört dauðafæri á 73. mínútu þegar Harry Maguire gaf boltann beint á David Silva á eigin markteig. Silva gaf boltann til hliðar á Ilkay Gündogen en Maguire bætti þá fyrir mistökin með því að hirða boltann af honum.

Vonir United dvínuðu verulega á 77. mínútu þegar Nemanja Matic fékk sitt annað gula spjald og var þar með rekinn af velli.

Tíu leikmenn United fengu þó eitt gott tækifæri, aukaspyrnu í vítaboga City á 88. mínútu en Fred skaut beint í varnarvegginn og þar fór síðasta tækifæri liðsins.

Man. City 0:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Sergio Agüero (Man. City) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert