Siðlaust tómarúm í enska fótboltanum

Leikmenn Newcastle eru á fullum launum á meðan starfsfólk félagsins …
Leikmenn Newcastle eru á fullum launum á meðan starfsfólk félagsins þarf að fá greiðslur úr almannasjóðum til að halda sínu kaupi. AFP

Tvö félög í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, Newcastle og Norwich, hafa ákveðið að nýta sér stuðning breskra stjórnvalda við atvinnulífið og láta hið opinbera greiða starfsfólki sínu hluta launa sinna af almannafé.

Þetta hefur þegar kallað á sterk viðbrögð í bresku þjóðfélagi og meðal þeirra sem hafa gagnrýnt félögin er lögfræðingurinn Julian Knight sem starfar fyrir menningarmálaráðuneytið. „Þetta stendur í manni og opinberar hið siðlausa tómarúm sem viðgengst í enska fótboltanum þar sem fjármálin eru brjálæðisleg," sagði Knight, samkvæmt fréttastofu Reuters.

Það sem fer fyrir brjóstið á mörgum er að á meðan félögin leita eftir stuðningi úr almannasjóðum eru leikmenn liðanna í ensku úrvalsdeildinni á himinháum launum. 

Tottenham hefur farið inn á svipaðar brautir með því að lækka 550 manns úr starfsliði sínu um 20 prósent í launum.

Á meðan hafa engir samningar náðst á milli félaganna og Samtaka atvinnuknattspyrnumanna varðandi mögulega launalækkun leikmannanna.

Þessum málum er öðruvísi farið víða annars staðar og meðal annars skar Katalóníustórveldið Barcelona laun allra leikmanna sinna í öllum íþróttagreinum niður um 70 prósent til að annað starfsfólk félagsins héldi fullum launum á meðan fótboltinn liggur niðri vegna kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert