Veiran hefur ekki áhrif á fjárhaginn

Ed Woodward, framkvæmdastjóri Manchester United, hefur verið duglegur að vinna …
Ed Woodward, framkvæmdastjóri Manchester United, hefur verið duglegur að vinna á bak við tjöldin í gegnum tíðina. AFP

Enska knattspyrnufélagið Manchester United þarf ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur þessa dagana þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi gert atvinnumannaliðum víðs vegar að í heiminum erfitt fyrir undanfarnar vikur. Allar deildarkeppnir eru nú í ótímabundnu fríi vegna veirunnar, nema hvítrússneska deildin, og því er lítið um tekjur í fótboltanum í dag.

Enskir fjölmiðlar greina hins vegar frá því að staða United sé afar sterk vegna styrktarsamninga sem framkvæmdastjórinn Ed Woodward hefur verið duglegur að sækja fyrir félagið. Hagnaður United á síðasta ári í gegnum styrktaraðila sína var í kringum 173 milljónir punda og félagið er því ágætlega í stakk búið til þess að takast á við faraldurinn.

Þrátt fyrir að United sé ekki að fá neinar tekjur í kringum leikdaga og varning tengdan því þá ættu styrktarsamningarnir að koma félaginu yfir hæstu hæðirnar á meðan faraldurinn gengur yfir. Woodward sjálfur hefur hins vegar ekki útilokað það að einhverjir starfsmenn innan félagsins muni þurfa að taka á sig launalækkun en alls starfa um 900 manns hjá félaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert