Fjögur smit í ensku úrvalsdeildinni

Adrian Mariappa er einn af þeim sem greindist með veiruna …
Adrian Mariappa er einn af þeim sem greindist með veiruna eftir fyrstu prófanir. AFP

Fjórir leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu greindust með kórónuveiruna í dag af þeim 1.008 einstaklingum sem voru prófaðir í dag og í gær en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Leikmennirnir fjórir koma úr þremur félögum en þetta var í þriðja sinn sem leikmenn og starfsmenn eru prófaðir á stuttum tíma.

Í fyrstu prófunum voru sex sem greindust með kórónuveirusmit af þeim 748 sem voru prófaðir. Dagana 19.-22. maí voru svo gerð 996 próf og þá greindust tvö smit. Ekki hefur verið gefið upp hvort þeir fjórir sem greindust í dag voru leikmenn eða starfsmenn og þá hefur ekki verið greint frá því hvort um sé að ræða aðila sem hafa nú þegar greinst með veiruna.

Á morgun og föstudaginn verða svo allt upp í 60 manns úr hverju félagi prófaðir fyrir veirunni en niðurstaðna úr þeim prófum er að vænta um helgina. Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar vonast til þess að geta hafið leik að nýju um miðjan júní en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan 9. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert