Klopp skilur ekki af hverju fólk notar ekki grímu

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vill að leikmenn sínir noti andlitsgrímur og hanska til að forðast kórónuveiruna en stutt er í að enska úrvalsdeildin hefji göngu sína á ný.

Deildin hefst 17. júní eftir þriggja mánaða hlé vegna veirufaraldursins en topplið Liverpool mætir nágrönnum sínum í Everton þremur dögum síðar. Þjóðverjinn segir öryggi leikmanna sinna í algjöru fyrirrúmi og vill að þeir noti grímur og hanska í varúðarskyni.

„Við getum aldrei verið öruggir um að það verði engin smit. Við lifum allir venjulegum lífum en strákarnir eru agaðir,“ sagði Klopp í viðtali við BBC. „Við þurfum að fara á bensínstöð, kaupa í matinn og við notum grímur og hanska. Ég skil ekki af hverju allir Englendingar gera ekki slíkt hið sama.

Ég er enginn sérfræðingur en það hjálpaði í Þýskalandi. Við höfum sagt leikmönnunum að fara varlega og taka engar áhættur. Við mannfólkið erum okkar eigin stærsti óvinur stundum,“ bætti hann við en þýski boltinn byrjaði aftur fyrir tveimur vikum síðan og hefur gengið vel að koma fótboltanum aftur af stað, þó vissulega sé hann spilaður með takmörkunum, vegna smithættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert