City skaut nágrönnunum ref fyrir rass

Nathan Aké í leiknum gegn Manchester United.
Nathan Aké í leiknum gegn Manchester United. AFP

Manchester City skaut nágrönnum sínum í United ref fyrir rass þegar félagið gekk frá kaupum á varnarmanninum Nathan Aké frá Bournemouth í gær. Sky Sports segir frá því að United hafði mikinn áhuga á að kaupa leikmanninn.

Aké, sem er 25 ára miðvörður, var öflugur í liði Bournemouth frá árinu 2017 og spilaði 115 leiki í úrvalsdeildinni með liðinu, skoraði í þeim ellefu mörk. Hann stóðst læknisskoðun hjá City í gærmorgun og var keyptur fyrir um 41 milljón punda.

United var hins vegar áhugasamt um leikmanninn og sást Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, ræða löngum stundum við Aké eftir leik United gegn Bournemouth á Old Trafford fyrir nokkrum vikum. Seinagangur forráðamanna liðsins varð hins vegar til þess að City gerði skyndilegt áhlaup og keypti hann á undan nágrönnum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert