City í annað sætið eftir yfirburðasigur

John Stones skoraði fyrstu tvö úrvalsdeildarmörk sín fyrir Manchester City …
John Stones skoraði fyrstu tvö úrvalsdeildarmörk sín fyrir Manchester City í kvöld. AFP

Manchester City er komið í annað sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir mjög sannfærandi sigur á Crystal Palace, 4:0, á Etihad-leikvanginum í Manchester í kvöld.

City er tveimur stigum á eftir Manchester United og á auk þess leik til góða þannig að Pep Guardiola og hans menn hafa nú tapað fæstum stigum allra liða í deildinni. United er með 37 stig, City 35, Leicester 35 og Liverpool 34 í fjórum efstu sætunum.

Manchester City réð ferðinni frá upphafi til enda og miðvörðurinn John Stones skoraði fyrsta markið með skalla eftir glæsilega sendingu frá Kevin De Bruyne. Hans fyrsta úrvalsdeildarmark fyrir City og staðan var 1:0 í hálfleik.

Ilkay Gündogan bætti við marki með fallegu skoti frá vítateig á 57. mínútu og eftir það var aðeins spurning hve stór sigurinn yrði. Stones skoraði aftur á 68. mínútu og Raheem Sterling innsiglaði sigurinn með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 88. mínútu.

Crystal Palace er áfram í þrettánda sæti deildarinnar með 23 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert