Vonandi hefur Rúnar ekki sungið sitt síðasta

Rúnar Alex Rúnarsson
Rúnar Alex Rúnarsson AFP

Ástralski landsliðsmarkvörðurinn Mat Ryan gekk til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal á láni frá Brighton í gær en fyrir hjá liðinu eru Bernd Leno og Rúnar Alex Rúnarsson.

Búist er við því að Ryan sé ætlað að berjast við Leno um markvarðarstöðu Lundúnaliðsins og þá er talið líklegt að Rúnar verði lánaður en hann hefur meðal annars verið orðaður við nokkur lið í ensku B-deildinni. Rúnar hefur átt erfiða eldskírn hjá enska stórliðinu eftir að hafa gengið til liðs við Arsenal í vetur en hann gerði slæm mistök í markinu í leik gegn Manchester City í deildabikarnum í desember.

Gamla Arsenal kempan Martin Keown vonast þó til þess Rúnar hafi ekki leikið sinn síðasta leik fyrir Arsenal. „Hann er ungur maður og var kannski ekki alveg tilbúinn fyrir tækifærið,“ sagði Keown í viðtali við talkSPORT eftir að Arsenal staðfesti samninginn við Ryan. „Ég vona að hann komi tvíefldur til baka,“ bætti Keown við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert