Everton samdi við lykilmann til 2025

Lucas Digne lyftir sínum öfluga vinstri fæti í leiknum gegn …
Lucas Digne lyftir sínum öfluga vinstri fæti í leiknum gegn Liverpool um síðustu helgi. AFP

Franski bakvörðurinn Lucas Digne hefur framlengt samning sinn við enska knattspyrnufélagið Everton og er nú samningsbundinn því til ársins 2025.

Digne, sem er 27 ára gamall, kom til Everton frá Barcelona sumarið 2018. Hann hefur nú leikið 97 leiki með liðinu, skorað fimm mörk og átt nítján stoðsendingar. Hann er mjög öflugur í aukaspyrnum en hann og Gylfi Þór Sigurðsson skiptast á um að sjá um föstu leikatriðin hjá Everton, Digne þegar spyrna þarf með vinstri og Gylfi þegar spyrna þarf með hægri fæti.

Digne hefur ennfremur fest sig vel í sessi með franska landsliðinu og á þar 35 leiki að baki en hann lék áður um það bil 70 leiki með öllum yngri landsliðum Frakklands. Digne ólst upp hjá Lille og lék síðan með París SG og Roma áður en hann fór til Barcelona árið 2016.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert