Ósanngjörn gagnrýni á liðsfélagann

Roberto Firmino og Sadio Mané fagna marki.
Roberto Firmino og Sadio Mané fagna marki. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður Englandsmeistara Liverpool í fótbolta, segir að gagnrýni sem samherji hans Roberto Firmino hefur fengið síðustu vikur eftir slæmt gengi liðsins sé ekki sanngjörn.

Brasilíski framherjinn Firmino hefur aðeins skorað eitt mark á þessu ári en Mané segir að það sé ekki rétti mælikvarðinn á framlag hans til liðsins.

„Hann á skilið meira lof en ég og Mo (Salah), það er á hreinu," sagði Mané við ESPN Brazil en Mané hefur skorað 11 mörk á tímabilinu, Salah 24 og Firmino 6.

„Fótboltinn er víst svona, fólk tekur eftir þeim sem skora mörkin. En ef við fengjum ekki hjálpina frá Bobby sé ég ekki fyrir mér að við Mo myndum skora eins mörg mörk og við gerum. Hann auðveldar okkur allt í sóknarleiknum. Þið í Brasilíu eruð stálheppin að eiga Firmino. Ég segi alltaf við Bobby að hann verði að skipta um ríkisfang og leika með Senegal. Það væri draumurinn. Ég elska að spila með honum, hann er líklega minn uppáhalds liðsfélagi," sagði Mané.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert