Tuttugu sigurleikir í röð

Tomas Soucek tæklar Fernandinho í leiknum í dag.
Tomas Soucek tæklar Fernandinho í leiknum í dag. AFP

Manchester City vann sinn tuttugasta sigur í röð er liðið lagði West Ham að velli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag, 2:1, en leikið var á Etihad-leikvanginum í Manchester.

Rúben Dias kom heimamönnum yfir eftir hálftímaleik með föstum skalla eftir fyrirgjöf frá Kevin de Bruyne en Michail Antonio kreisti fram jöfnunarmark fyrir gestina frá West Ham rétt fyrir hálfleik þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Jesse Lingard.

City tókst hins vegar að vinna sinn tuttugasta leik í röð í öllum keppnum er hinn miðvörður liðsins, John Stones, endurheimti forystuna með skoti, sem hrökk af varnarmanni, á 68. mínútu, eftir sendingu frá Riyad Mahrez. Fleiri urðu mörkin ekki og er City nú með 62 stig á toppi deildarinnar, 13 stigum á undan Manchester United sem á leik til góða.

West Ham er áfram í 4. sæti deildarinnar með 45 stig, fjórum stigum á eftir Leicester og tveimur á undan Chelsea en bæði lið eiga leik til góða.

Man. City 2:1 West Ham opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert