Markalaust í fallslagnum

Conor Gallagher og Joe Willock í baráttunni í leiknum í …
Conor Gallagher og Joe Willock í baráttunni í leiknum í dag. AFP

West Bromwich Albion og Newcastle United gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Bæði lið voru varkár í sinni nálgun en fengu þó sín færi. Mbaye Diagne átti til að mynda skot fyrir WBA á lofti á 28. mínútu eftir skallasendingu Kyle Bartley en það fór naumlega fram hjá markinu.

Á 55. mínútu fékk liðsfélagi þeirra, Matt Phillips, besta færi leiksins eftir fyrigjöf Conot Townsend frá vinstri kanti en Phillips setti boltann fram hjá.

Eftir rúmlega klukkutíma leik varði Sam Johnstone í marki WBA vel í horn eftir gott skot Joe Willock. Ryan Fraser tók hornspyrnuna og fann þar Ciaran Clark en skalli hans úr fínu færi fór fram hjá.

Þar við sat og liðin sættust á jafnan hlut.

Jafnteflið gerir lítið fyrir bæði lið en er þó skárra fyrir Newcastle, sem fer upp í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er nú einu stigi á undan Brighton í 17. sætinu og fjórum stigum á undan Fulham í síðasta fallsæti deildarinnar.

WBA er hins vegar áfram í 19. og næstsíðasta sæti deildarinnar, átta stigum frá öruggu sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert