Tottenham skoraði enn og aftur fjögur

Harry Kane og Gareth Bale fóru á kostum.
Harry Kane og Gareth Bale fóru á kostum. AFP

Tottenham skoraði fjögur mörk í fjórða sinn í síðustu sex leikjum er liðið vann sannfærandi 4:1-heimasigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. 

Harry Kane og Gareth Bale fóru á kostum fyrir Tottenham því þeir skoruðu tvö mörk hvor ásamt því að Kane lagði upp tvö. 

Þeir léku vel saman í fyrsta markinu á 25. mínútu er Bale skoraði eftir fyrirgjöf frá Kane. Christian Benteke jafnaði óvænt á lokamínútu fyrri hálfleiks með fallegum skalla og var staðan í hálfleik 1:1. 

Palace réð hins vegar ekkert við Tottenham í seinni hálfleik. Bale skoraði sitt annað mark á 49. mínútu, aftur eftir undirbúning hjá Kane. Enski framherjinn sá sjálfur um að skora þriðja markið á 52. mínútu og fjórða markið á 76. mínútu og þar við sat. 

Tottenham er í sjötta sæti með 45 stig, einu stigi á eftir Everton og tveimur á eftir Chelsea. Palace er í 13. sæti með 34 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert