Lykilmaður City frá í mánuð?

Kevin De Bruyne fór meiddur af velli gegn Chelsea.
Kevin De Bruyne fór meiddur af velli gegn Chelsea. AFP

Kevin De Bruyne, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester City, gæti verið frá næstu fjórar til fimm vikurnar vegna meiðsla.

Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en De Bruyne fór meiddur af velli í 1:0-tapi City gegn Chelsea í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley á laugardaginn.

Belginn meiddist á ökkla en í fyrstu var talið að hann hefði skaddað liðbönd, sem hefði haldið honum frá keppni í nokkra mánuði.

Fyrstu fréttir benda til þess að meiðslin séu ekki þess eðlis að hann verði frá í einhverja mánuði en hann gæti hins vegar misst af einvíginu gegn PSG í undanúrslitum Meistaradeildarinnar sem fer fram 28. apríl í Frakklandi og 4. maí á Englandi.

Manchester City hefur ekki tjáð sig meiðslin enn sem komið er en De Bruyne hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu og skorað fimm mörk og lagt upp önnur ellefu í 24 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert