Henderson dregur sig úr enska hópnum

Dean Henderson (t.h.) hefur neyðst til þess að draga sig …
Dean Henderson (t.h.) hefur neyðst til þess að draga sig úr enska landsliðshópnum. AFP

Dean Henderson, varamarkvörður enska landsliðsins og leikmaður Manchester United, hefur dregið sig úr enska landsliðshópnum vegna meiðsla og tekur því engan þátt á Evrópumótinu í fótbolta sem nú stendur yfir.

Henderson, sem er meiddur á mjöðm, var á varamannabekk Englands þegar liðið vann góðan 1:0-sigur í D-riðli mótsins gegn Króatíu á sunnudaginn.

Jordan Pickford hjá Everton er aðalmarkvörður liðsins og einnig er Sam Johnstone, markvörður West Bromwich Albion, í hópnum.

Gareth Southgate, þjálfari Englendinga, hefur þegar kallað inn nýjan markvörð í stað Hendersons. Það er Aaron Ramsdale, markvörður Sheffield United.

England mætir Skotlandi næstkomandi föstudag í öðrum leik liðanna í D-riðlinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert