Villa staðfestir komu Jamaíkumannsins – Grealish nálgast City

Leon Bailey er genginn til liðs við Aston Villa.
Leon Bailey er genginn til liðs við Aston Villa. AFP

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa hefur formlega staðfest kaup sína á jamaíska vængmanninum Leon Bailey, sem kemur frá þýska félaginu Bayer Leverkusen. Kaupverðið er sagt vera um 30 milljónir punda og gerir hann fjögurra ára samning.

Bailey er þriðju kaup Villa í sumar, á eftir sóknartengiliðnum Emiliano Buendía og vængbakverðinum Ashley Young, sem sneri aftur í sumar.

„Leon er afar spennandi sóknarmaður sem býr yfir miklum hraða og sköpunarkrafti. Við hlökkum til að sjá hann sýna gæði sín fyrir Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Dean Smith, knattspyrnustjóri Villa.

Kaupin á Buendía og nú Bailey renna stoðum undir það að Jack Grealish, stærsta stjarna Villa, sé á leið til Manchester City.

The Guardian segir viðræður langt komnar á milli félaganna og búist sé við því að Grealish gangi til liðs við Englandsmeistarana á næstu dögum. Kaupverðið á honum er sagt vera 100 milljónir punda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert