Liverpool og City áfram - Everton úr leik

Takumi Minamino skoraði tvö og Divock Origi eitt.
Takumi Minamino skoraði tvö og Divock Origi eitt. AFP

Liverpool tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins í fótbolta með því að vinna Norwich á útivelli, 3:0. Japaninn Takumi Minamino skoraði tvö mörk fyrir Liverpool og Divock Origi gerði eitt. Caoimhin Kelleher, markvörður Liverpool, varði víti frá Christos Tzolis í stöðunni 1:0.

Wycombe Wanderers úr C-deildinni komst yfir á útivelli gegn Englandsmeisturum Manchester City er Brandon Hanlan skoraði á 22. mínútu. City svaraði með tveimur mörkum frá Riyad Mahrez og einu frá Kevin De Bruyne, Phil Foden, Ferran Torres og Cole Palmer og vann City því 6:1.

Úrvalsdeildarlið Everton féll úr leik á útivelli gegn B-deildarliði QPR eftir vítakeppni. Staðan eftir 90 mínútur var 2:2 og QPR vann 8:7-sigur í vítakeppninni. Charlie Austin skoraði bæði mörk QPR í venjulegum leiktíma á meðan Lucas Digne og Andros Townsend gerðu mörk Everton.

Manchester City lenti undir en vann stórsigur á Wycombe.
Manchester City lenti undir en vann stórsigur á Wycombe. AFP

Jay Rodriguez var hetja Burnley úr úrvalsdeildinni í 4:1-heimasigri á Rochdale úr D-deildinni. Rodriguez gerði sér lítið fyrir og skoraði öll fjögur mörk Burnley eftir að Jake Beesley hafði komið Rochdale óvænt yfir. 

Þá vann Leeds sigur á Fulham á útivelli í vítakeppni eftir markalaust jafntefli í venjulegum leiktíma. Brentford áti í töluvert minni vandræðum með Oldham úr D-deildinni og vann 7:0-sigur. 

Southampton slapp áfram eftir sigur á B-deildarliði Sheffield United í vítaspyrnukeppni en Watford féll hinsvegar út með tapi á heimavelli gegn B-deildarliði Stoke, 1:3.

Umferðinni lýkur annað kvöld og í kjölfarið verður dregið í 16-liða úrslit. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert