Allt á móti okkur

Rafael Benítez var að vonum sáttur með úrslitin í kvöld.
Rafael Benítez var að vonum sáttur með úrslitin í kvöld. AFP

„Þegar stuðningsmennirnir, leikmennirnir og allir í kringum félagið standa saman er allt hægt,“ sagði Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Everton, í samtali við Sky Sports eftir ótrúlegan 2:1-sigur liðsins gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park í kvöld.

Demarai Gray skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma en tvö mörk voru dæmd af Everton í leiknum vegna rangstöðu. Þetta var jafnframt fyrsti sigur liðsins síðan 25. september.

„Við sýndum ótrúlegan karakter að snúa þessum leik við eftir allt sem hafði gengið á á undan,“ sagði Benítez.

„Það voru tvö mörk dæmd af okkur og það getur setið í mönnum. Við börðumst hins vegar til síðasta blóðdropa og það er nákvæmlega það sem stuðningsmennirnir vilja sjá. Vonandi getum við byggt ofan á þennan sigur og snúið genginu við.

Við höfum verið nálægt því að vinna leiki en hlutirnir hafa ekki fallið með okkur. Það var allt á móti okkur í dag líka en við komum til baka. Það er búið að eyða háum fjárhæðum í að styrkja liðið og stuðningsmennirnir vilja sjá liðið vaxa og við munum gera það.

Þessi sigur kveikir líka von og gefur okkur sjálfstraust sem er nákvæmlega það sem liðið þurfti á þessum tímapunkti,“ bætti Benítez við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert