Klunninn sem kleif tindinn

Ray Kennedy var afar sigursæll á ferlinum. Hér er hann …
Ray Kennedy var afar sigursæll á ferlinum. Hér er hann með Evrópubikarinn ásamt Graeme Souness og Kenny Dalglish. Ljósmynd/thisisanfield.com

Hann var réttur maður, á réttum tíma, á hárréttum velli. Miðherjinn Ray Kennedy var aðeins nítján ára þegar hann stangaði fyrirgjöf George Armstrongs í netið hjá Tottenham Hotspur á White Hart Lane vorið 1971 og tryggði Arsenal sinn fyrsta meistaratitil í heil 18 ár. Mark sem gerði hann umsvifalaust að goðsögn hjá félaginu. Ekki spillti staðsetningin fyrir enda Tottenham erkifjandi Arsenal og stuðningsmenn félagsins bresta iðulega í söng þegar afrekið er rifjað upp. „We won the league in the s**t hole; we won the league at Shite Hart Lane!“

Þið afsakið orðbragðið!

Þremur árum áður leit allt út fyrir að stuttum knattspyrnuferli Kennedys væri lokið. Hann var þá á mála hjá Port Vale en knattspyrnustjóri liðsins, Stanley Matthews, sem vissi eitt og annað um íþróttina, lét hann fara með þeim orðum að hann væri of stór, klunnalegur og hægfara til að geta haft lifibrauð af sparkinu. Okkar maður sneri þá aftur til síns heima í Norðymbralandi og fékk sér vinnu í sælgætisverksmiðju. Spyrnti sér til yndisauka með áhugamannaliðinu New Hartley Juniors. Þar kom útsendari Arsenal auga á hann en sá hafði verið sendur til að fylgjast með allt öðrum manni.

Kennedy hóf ferilinn sem framherji hjá Arsenal.
Kennedy hóf ferilinn sem framherji hjá Arsenal. Ljósmynd/arsenal.com


Til að byrja með mátti Kennedy dúsa í varaliði Arsenal en lét fyrst til sín taka í fyrri úrslitaleik liðsins gegn Anderlecht í borgakeppni Evrópu vorið 1970, minnkaði muninn í 1:3 í útileiknum. Mark sem átti eftir að reynast dýrmætt en Arsenal vann seinni leikinn á Highbury 3:0.

Kennedy hafði aðeins leikið sex leiki fyrir Arsenal þegar Charlie George ökklabrotnaði á upphafsdegi Englandsmótsins 1970. Það opnaði dyrnar inn í aðalliðið við hlið Johns Radfords í framlínunni og þegar upp var staðið var Kennedy markahæstur leikmanna liðsins, skoraði 26 mörk í 63 leikjum. Arsenal vann bikarinn einnig þetta vor.

Seinustu kaup Shanklys

Hann lék þrjú tímabil til viðbótar með Arsenal en fann sig ekki eins vel og þennan fyrsta vetur og var seldur fyrir metfé til Liverpool sumarið 1974. Það voru seinustu kaup Bills Shanklys sem settist í helgan stein sama dag og Kennedy skrifaði undir samninginn. „Kannski var það seinasta sem ég gerði fyrir félagið að kaupa frábæran nýjan leikmann,“ sagði sá gamli. Eins og svo margt annað hjá Shankly var það negla.

Kennedy fór reyndar rólega af stað á Anfield enda erfitt að skilja að Kevin Keegan og John Toshack í framlínunni. Þeir virtust fæddir á sömu bylgjulengd.

Arftaka Shanklys, Bob Paisley, hugkvæmdist þá að færa Kennedy aftur á miðjuna, þar sem leikskilningur hans, styrkur og eitraður vinstri fóturinn myndu njóta sín í botn. Og bingó! Okkar maður missti varla úr leik næstu árin og vann fimm Englandsmeistaratitla, einn UEFA-bikar og þrjá Evrópumeistaratitla með Rauða hernum. Var algjör lykilmaður og sérdeilis vel þokkaður á bítlaslóð. Um það vitna fræg ummæli Paisleys: „Frá mínum bæjardyrum séð er hann einn af merkustu leikmönnum Liverpool og sennilega sá vanmetnasti.“

Kennedy kvaddi Liverpool 1982 og lék til skamms tíma með Swansea og Hartlepool áður en skórnir fóru á hilluna frægu tveimur árum síðar. Sama ár greindist hann með parkinsonsjúkdóminn sem litaði líf hans allar götur síðan. Ray Kennedy lést á þriðjudaginn var, sjötugur að aldri.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert