Reyni alltaf að vera jákvæður

Trent Alexander-Arnold skorar fallegt mark í kvöld.
Trent Alexander-Arnold skorar fallegt mark í kvöld. AFP/Nigel Roddis

„Þetta var mjög góð frammistaða hjá strákunum eftir vonbrigði á laugardag,“ sagði Trent Alexander-Arnold, bakvörður Liverpool, í samtali við BT Sport-sjónvarpsstöðina eftir 2:0-sigur liðsins á Rangers í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld.

„Á laugardag komumst við aldrei í gang, það vantaði pressuna og voru hægir. Það var algjör andstæða í dag. Við byrjuðum vel og héldum áfram út allan leikinn. Þeir áttu sín augnablik en við spiluðum glæsilega.“

Bakvörðurinn skoraði afar huggulegt mark, beint úr aukaspyrnu, er hann kom Liverpool á bragðið snemma leiks.

„Ég er ekki vanur því að skora þarna megin, ég skora yfirleitt hinum megin. Ég hugsaði að ég vildi bara hitta á markið, ég einbeiti mér að því þegar ég er að æfa mig. Ef þú hittir á markið er alltaf möguleiki á marki, eða einhver fylgi á eftir,“ sagði hann.

Leikmaðurinn hefur verið mikið gangrýndur fyrir slakan varnarleik til þessa á tímabilinu, en Alexander-Arnold er lítið að velta slíku fyrir sér.

„Sama hvað, þá reyni ég alltaf að vera jákvæður. Fólk talar en fyrir mig snýst þetta um að standa mig fyrir liðið. Það er það eina sem skiptir máli; að hjálpa liðinu og ná í sigra. Þetta hefur verið hæg byrjun hjá mér en ég hlakka til framhaldsins,“ sagði bakvörðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert