Gengst undir aðgerð og missir af HM

Pedro Neto meiddist í leik gegn West Ham um síðustu …
Pedro Neto meiddist í leik gegn West Ham um síðustu helgi. AFP/Ian Kington

Knattspyrnumaðurinn Pedro Neto, portúgalskur vængmaður enska liðsins Wolverhampton Wanderers, þarf að gangast undir aðgerð vegna ökklameiðsla og missir þar með af HM 2022.

Neto skaddaði liðbönd í ökkla í leik Úlfanna og West Ham United í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og fór af þeim sökum af velli í fyrri hálfleik.

„Eftir að hafa gengist undir nánari læknisskoðun og fengið álit sérfræðings, hefur verið tekin ákvörðun um að hann gangist undir aðgerð.

Þetta þýðir að því miður verður hann ekki leikfær fyrir komandi heimsmeistaramót,“ sagði í tilkynningu frá félaginu.

Neto, sem er 22 ára gamall, á að baki þrjá A-landsleiki fyrir Portúgal og var í leikmannahópnum í síðasta landsliðsverkefni, tveimur leikjum í Þjóðadeild UEFA gegn Tékklandi og Spáni, en kom þó ekkert við sögu í þeim.

HM 2022 í Katar hefst þann 20. nóvember næstkomandi og lýkur með úrslitaleik þann 18. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert