Lykilmaður Arsenal meiddur og þarf í segulómun

Thomas Partey í baráttunni við Erling Haaland leikmann Manchester City …
Thomas Partey í baráttunni við Erling Haaland leikmann Manchester City í leik liðanna í gærkvöldi. AFP/Oli Scarff

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, staðfesti eftir tap liðsins gegn Manchester City í enska bikarnum í knattspyrnu í gærkvöldi að miðjumaðurinn Thomas Partey hafi meiðst og þurfi að fara í segulómun til að hægt verði að meta alvarleika meiðslanna.

„Hann fann fyrir óþægindum sem fóru versnandi. Hann fer í segulómun um helgina og þá sjáum við hvað er að hrjá hann. Mohamed Elneny er nú þegar meiddur og getur ekki spilað. Albert Sambi Lokonga hefur komið inn og staðið sig vel. Thomas er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og við söknuðum hans mikið í seinni hálfleik.“

Arsenal bauð í Moises Caicedo, miðjumann Brighton á dögunum en tilboðinu var hafnað. Síðan þá hefur leikmaðurinn sjálfur beðið um að vera seldur til félagsins á samfélagsmiðlum sínum. Það er því ekki ólíklegt, sér í lagi ef meiðsli Partey eru alvarleg, að Arsenal geri annað tilboð á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert