Algjörlega óafsakanlegt

Erik ten Hag á hliðarlínunni í kvöld.
Erik ten Hag á hliðarlínunni í kvöld. AFP/Oli Scarff

„Tilfinningarnar eru blendnar,“ sagði Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United í samtali við BBC eftir 2:2-jafntefli gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Old Trafford í kvöld.

Leeds komst 2:0 yfir í leiknum en Marcus Rashford minnkaði muninn fyrir United á 62. mínútu áður en Jadon Sancho jafnaði metin á 70. mínútu.

United er með 43 stig í þriðja sæti deildarinnar eftir úrslit kvöldsins, sjö stigum á eftir toppliði Arsenal en Arsenal á tvo leiki til góða á United.

„Ég er ánægður með stigið úr því sem komið var en ég lít á þetta sem tvö töpuð stig. Það er algjörlega óafsakanlegt hvernig við byrjum leikinn, þetta var nágrannaslagur, og þú átt ekki að þurfa meiri hvatningu en það.

Á sama tíma sköpuðum við okkur góð færi og hefðum hæglega getað skorað fleiri mörk. Ég verð hins vegar að hrósa mínu liði fyrir karakterinn sem þeir sýndu með því að koma til baka og jafna leikinn með tveimur mjög góðum liðsmörkum,“ bætti Hollendingurinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert