Everton langt á eftir áætlun

Stuðningsmenn Everton syngja á Goodison Park.
Stuðningsmenn Everton syngja á Goodison Park. AFP/Paul Ellis

Bygging nýs heimavallar enska knattspyrnufélagsins Everton er langt á eftir áætlun, en nýr völlur Liverpool-félagsins á að rúma tæplega 53.000 manns í sæti.

The Guardian greinir frá að bygging vallarins sé að minnsta kosti þremur mánuðum á eftir áætlun og verður hann því ekki tilbúinn í byrjun tímabilsins 2024/25, eins og til stóð.

Samkvæmt áætlun félagsins mun bygging vallarins kosta 760 milljónir punda, en sú upphæð mun væntanlega hækka vegna seinkunarinnar.

Bygging vallarins hefur staðið yfir í 85 vikur, af fyrirhuguðum 150 vikum. The Guardian greinir frá að stór hluti af austur- og vesturstúkunni séu langt á eftir áætlun. Væri bygging vallarins á áætlun, væri byrjað að byggja þakið, en sú vinna er ekki komin af stað.

Everton hefur leikið á Goodison Park frá árinu 1892 en hann rúmar tæplega 40.000 áhorfendur.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert