„Ekki hægt að halda leikmanni sem vill ekki vera áfram“

Declan Rice og David Moyes fagna í gærkvöldi.
Declan Rice og David Moyes fagna í gærkvöldi. AFP/Vlastimil Vacek

Knattspyrnumaðurinn Declan Rice, fyrirliði West Ham United og landsliðsmaður Englands, mun yfirgefa félagið í sumar.

Rice vann í gærkvöldi Sambandsdeild UEFA með West Ham þegar liðið hafði betur gegn Fiorentina í úrslitaleik í Prag í Tékklandi.

David Sullivan, stjórnarformaður Hamranna, var tekinn tali af Talksport eftir sigurinn í gær. Þar var hann spurður hreint út hvort um síðasta leik Rice fyrir liðið hafi verið að ræða.

„Ég held að það hljóti að vera. Við lofuðum því að hann gæti farið. Hann var búinn að einsetja sér það,“ svaraði Sullivan.

„Það er ekki hægt að biðja um meira framlag frá einum manni á þessu tímabili. Þegar fram líða stundir þarf hann að róa á önnur mið og við þurfum að fá mann, eða menn, í staðinn.

Þetta er ekki eitthvað sem við viljum að gerist. Við buðum honum 200.000 pund á viku fyrir 18 mánuðum síðan. Hann hafnaði því tilboði,“ bætti hann við.

Sullivan sagði Rice því hafa tapað háum launafjárhæðum.

„Það hefur kostað hann tíu milljónir punda að vera um kyrrt hjá West Ham á þeim tíma. Og hann vill fara. Það er ekki hægt að halda leikmanni sem vill ekki vera áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert