Plebbar hefja spurningaflóð á ný

Stúdentakjallarinn.
Stúdentakjallarinn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Plebbarnir Daníel Freyr og Arnór Grjót hafa ákveðið að rjúfa þriggja ára hlé frá spurningakeppnum á Stúdentakjallaranum í kvöld þegar spurningakeppni um tölvuleiki fer fram.

„Við vorum með geggjaðar spurningakeppnir, við vorum með lélegar spurningakeppnir,“ segir Arnór í samtali við mbl.is um sívinsælu keppnirnar þeirra, en þess má geta að þegar mest á lét voru tæplega 100 lið sem tóku þátt.

Byrja af krafti eins og í upphafi

Sem fyrr segir eru um þrjú ár síðan síðasta spurningakeppni fór fram en þeir héldu keppnir hvað eftir annað á árunum 2015 til 2019 sem nutu mikilla vinsælda. Nú ætla þeir að byrja aftur núna af krafti á sama máta og í upphafi, þegar þeir spurðu salinn spjörunum úr varðandi tölvuleiki.

Keppnin hefst klukkan 20:00 í kvöld á Stúdentakjallaranum og eru allir hvattir til þess að taka þátt, hvort sem um mikla tölvuleikjaspilara er að ræða eða bara þá sem vilja gera sér glaðan dag.

„Það mætti í raun segja að það renni 8 bit-blóð í plebbaæðum,“ segir Daníel í samtali við mbl.is en þeir eru báðir miklir tölvuleikjaunnendur og heldur Arnór jafnframt utan um hlaðvarpsþáttinn Tölvuleikjaspjallið.

Hundrað bjórar og búningar

Í verðlaun eru hundrað bjórar og má búast við því að heyra plebbana segja ýmsa brandara á sviðinu og skarti búningum tengdum tölvuleikjum.

Nánar um þetta má lesa á Facebook-viðburði keppninnar en hér fyrir neðan má horfa á myndband sem þeir bjuggu til í tilefni þess að spurningakeppnirnar séu að fara af stað á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert