Benz borgar Hamilton 14 milljarða

Mercedes mun endurgjalda Hamilton góða frammistöðu ríkulega.
Mercedes mun endurgjalda Hamilton góða frammistöðu ríkulega. mbl.is/afp

Lewis Hamilton er sagður byrjaður viðræður við Mercedes-liðið um nýjan samning til þriggja ára, eða út árið 2017. Fréttir herma að samningurinn muni gefa honum 70 milljónir punda - jafnvirði tæplega 14 milljarða króna  - í aðra hönd.

Mercedes-stjórinn Toto Wolff staðfestir að samningaviðræður séu þegar hafnar þótt núverandi samningur Hamiltons við Mercedes renni ekki út fyrr en í árslok 2015. Gengið er út frá að semja til tveggja ára með eins árs framlengingarmöguleika, þ.e. hugsanlega út árið 2018.

Hamilton er þegar einn af allra best launuðu ökumönnum formúlu-1. Einungis Fernando Alonso hjá Ferrari er sagður þéna betur. Hermt er að laun hans frá Mercedes muni hækka úr 19 milljónum punda á ári í 23 milljónir punda.

Í síðustu viku framlengdi Mercedes-liðið samning við Nico Rosberg og gildir hann að lágmarki út árið 2016 en er með möguleikum á frekari framlengingu.

Hamilton kveðst ánægður í herbúðum Mercedes en alla sigra sína í formúlu-1, bæði hjá McLaren og síðar Mercedes, hefur hann unnið á bílum sem knúnir hafa verið af vélum frá Mercedes.

Í ár hefur Mercedes unnið níu af fyrstu 10 mótum ársins. Fimm þeirra hefur Hamilton unnið og Rosberg fjögur. Hið síðasta vann Rosberg hinn þýski í Hockenheim og var það í fyrsta sinn í rúma hálfa öld sem Mercedes vinnur formúlukappakstur sem lið á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert