Bottas bestur í bleytunni

Valtteri Bottas ræðir við tæknimenn í bílskúr Williams í Spa-Francorchamps.
Valtteri Bottas ræðir við tæknimenn í bílskúr Williams í Spa-Francorchamps. mbl.is/afp

Valtteri Bottas hjá Williams fótaði sig best á blautri brautinni í Spa Francorchamps og setti besta tímann á lokaæfingunni fyrir belgíska kappaksturinn.

Nýtti Bottas svo best þann litla tíma sem gafst í lokin til að aka á sléttum dekkjum í stað regndekkja.

Næsthraðast fór Daniel Ricciardo hjá Red Bull og þriðja besta hringinn átti Nico Rosberg hjá Mercedes.

Rigning var í Spa síðastliðna nótt og fram undir æfinguna og því ekki um annað að ræða framan af en brúka full regndekk og síðar millidekk. Spöruðu ökumenn þó aksturinn og eftir hálftíma, þegar æfingin var hálfnuð, höfðu aðeins þrír sett tíma.

Fjör færðist hins vegar í leikinn á lokahringjunum er ökumennirnir undirbjuggu sig undir tímatökuna sem hefst á hádegi að íslenskum tíma.

Kimi Räikkönen hjá Ferrari setti fjórða besta tímann og Lewis Hamilton hjá Mercedes þann fimmta besta. Í sætum sex til tíu urðu svo: Fernando Alonso hjá Ferrari, Daniil Kvyat hjá Toro Rosso, Jenson Button hjá McLaren,  Felipe Massa hjá Williams og Jean-Eric Vergne hjá Toro Rosso.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert