Fyrsti ráspóll Hamiltons í Mónakó

Lewis Hamilton ekur niður að hafnarsvæðinu í Mónakó í tímatökunni.
Lewis Hamilton ekur niður að hafnarsvæðinu í Mónakó í tímatökunni. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól Mónakókappakstursins. Er það fyrsti póllinn sem hann vinnur á ferlinum þar. Annar varð liðsfélagi hans Nico Rosberg og þriðji Sebastian Vettel hjá Ferrari.

Hamilton átti hálf bágt með að trúa því í talstöðinni að póllinn væri hans því hann hafði átt í mótbyr á æfingunni í morgun og framan af tímatökunni. Var það ekki fyrr en í lokalotunni að hann náði yfirhöndinni á þá Rosberg og Vettel en sá fyrrnefndi klúðraði lokatilraun sinni á bremsusvæði; læsti bremsum í fyrstu beygju hringsins og þar með var hann úr leik.

Vettel ók hraðast á lokaæfingunni og útlit var þá fyrir harðan slag um ráspólinn. Liðsfélagi hans Kimi Räikkönen var óskrifað blað í þeirri keppni þar sem hann slengdi bílnum utan í öryggisvegg neðst í brekkunni löngu upp að spilavítistorginu og gat því lítið undirbúið sig undir tímatökuna.

Rosberg var efstur eftir aðra lotu tímatökunnar af þremur, Vettel annar og Hamilton þriðji. Allt small hins vegar loks saman hjá Hamilton á síðustu 10 mínútum og keppinautarnir fengu ekkert við hann ráðið.

Í annarri lotunni bilaði vélin í McLarenbíl Fernando Alonso svo ekkert varð úr því að hann reyndi að komast í fyrsta sinn á árinu í hóp 10 fremstu á rásmarki. Vel leit út hjá liðsfélaga hans Jenson Button, var sjöundi eftir fyrstu tilraun. En hann hóf síðustu tilraun sína of seint og gat ekki beitt sér sem skyldi vegna gulra flagga og hafnaði í 12. sæti, en hefur keppni  ellefti. 

Tímatökurnar voru með þeim betri á árinu fyrir Red Bull því Daniel Ricciardo og Daniil Kvyat urðu í fjórða og fimmta sæti. Räikkönen hefur keppni af sjötta rásstað, Sergio Perez hjá Force India af sjöunda, Carlos Sainz hjá Toro Rosso af áttunda, Pastor Maldonado hjá Lotus af níunda og Max Verstappen hjá Toro Rosso af þeim tíunda.

Vegna refsingar fyrir gírkassaskipti fellur Romain Grosjean á Lotus úr ellefta sæti í það sextánda.  Alonso leggur af stað í 14. sæti en næstur á undan honum verður hans gamli liðsfélagi Felipe Massa hjá Williams. Valtteri Bottas, liðsfélagi Massa, mistókst í tilraunum sínum og hafnaði í 17. sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert