Ferrari hafnar Red Bull

Kimi Räikkönen á Ferrari og Daniil Kvyat á Red Bull …
Kimi Räikkönen á Ferrari og Daniil Kvyat á Red Bull í návígi í japanska kappakstrinum í Suzuka. mbl.is/afp

Fokið virðist í flest skjól fyrir Red Bull því nú hefur Ferrari bæst í hóp vélarframleiðenda sem synjað hafa beiðni liðsins um vélarsamstarfs frá og með næsta ári.

Þegar Mercedes hafnaði beiðni Red Bull um að fá þýsku vélarnar á næsta ári lýsti Ferrari sig viljugan til að leggja þeim til vélar. Það voru bara munnlegar yfirlýsingar og nú mun liðið hafa kippt að sér höndum.

Þýska akstursíþróttaritið Auto, Moto und Sport segir að viðræður milli Red Bull og Ferrari séu farnar út um þúfur.

Áður hafði Renault ákveðið að slíta samstarfi við Red Bull sem annars átti að gilda út næsta ár. Voru Frakkarnir orðnir full þreyttir á linnulausum skömmum og gagnrýni frá stjórum Red Bull sem kenndu vélunum um hversu liðið hefur spjarað sig ill í keppni í ár. Hafa vélar Renault þótt bæði skorta afl og endingartraust.

Ferrari hefur aftur á móti sagst reiðubúið að leggja Toro Rosso, dótturliði Red Bull, til vélar, enda liðið í raun með ítalskar rætur sem arftaki Minardi. Miðað við yfirlýsingar liðsstjórans Christan Horner hjá Red Bull fyrir um mánuði blasir einna helst við að liðið dragi sig út úr formúlunni. Sagði hann þá að annað hvort myndi liðið brúka Ferrarivélar eða hverfa.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert