Æfingu hætt vegna slyss

Carlos Sainz í Sotsjí.
Carlos Sainz í Sotsjí. mbl.is/afp

Lokaæfingunni fyrir tímatökur rússneska kappakstursins í Sotsjí var hætt í miðjum klíðum eftir harða ákeyrslu nýliðans Carlos Sainz hjá Toro Rosso á öryggisvegg.

Æfingin var ekki nema rétt rúmlega hálfnuð þegar Sainz missti vald á bíl sínum á bremsusvæði fyrir þrettándu beygju með þeim afleiðingum að hann flaug út úr brautinni, skall á steinvegg og grófst svo inn í öryggisvegginn.

Þegar hann var borinn burt á börum og þeim lyft inn í sjúkrabíl lyfti Sainz hönd og gaf merki með því að vísa þumalfingri til lofts. Æfingin var stöðvuð þegar í stað en síðar aflýst með öllu.

Bestum tíma hafði Ncio Rosberg hjá Mercedes náð fyrir óhappið, 1:38,561 mínútum. Í öðru sæti var Valtteri Bottas hjá Williams (1:39,287) og þriðji Lewis Hamilton hjá Mercedes (1:39,363).

Í fjórða og sjötta sæti urðu Force India félagarnir Sergio Perez og Nico Hülkenberg. Milli þeirra varð Felipe Massa hjá Williams sem ók hraðast á seinni æfingunni í gær.

Jenson Button og Fernando Alonso hjá McLaren urðu í sjöunda og níunda sæti og á milli þeirra Pastor Maldonado á Lotus. Tíunda besta tímanum náði svo Felipe Nasr hjá Sauber, ók hringinn hraðast á 1:41,229 mín.

Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel hjá Ferrari voru í 12. og 16. sæti á lista yfir hröðustu hringi æfingarinnar þegar henni var aflýst. Biðu þeir 15 mínútum lengri en aðrir að hefja akstur og höfðu því ekið nokkru minna en aðrir þegar hætt var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert