Með Prost og Schumacher

Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Austin með liðsmönnum sínum og …
Lewis Hamilton fagnar sigrinum í Austin með liðsmönnum sínum og gestum, þar á meðal tennisstjörnunni Venus Williams, sem krýpur milli þeirra Nico Rosberg. AFP

Lewis Hamilton vann sinn 50. sigur í formúlu-1 er hann ók  fyrstur yfir marklínu bandaríska kappakstursins í Austin á sunnudag. Aðeins tveir ökumenn aðrir höfðu náð þeim árangri.

Þetta var fyrsti mótssigur Hamiltons frá í Hockenheim 31. júlí, eða í tæpa þrjá mánuði. Ók hann af miklu öryggi í Austin og með sigrinum heldur hann áfram spennu í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna þótt 26 stigum á eftir liðsfélaga sínum Nico Rosberg sé.

„Ég var búinn að steingleyma því, að þetta yrði sá fimmtugasti,“ sagði Hamilton eftir mótið í Austin í Texas en hann hóf keppni í formúlu-1 2007.

„Þetta hefur tekið  tíma, ég er búinn að vera í þessu í 10 ár og gengið upp og ofan. Þetta hljómar súrrealískt, það er erfitt að trúa því að við séum aðeins þrír. Vonandi  á ég eftir að gera enn betur,“ bætti hann við.

Þeir tveir sem betur hafa gert eru Michael Schumacher sem vann 91 kappakstur í formúlu-1 og Alain Prost sem hrósaði sigri 51 sinni. Sjö sinnum vann Schumacher heimsmeistaratitil ökumanna og Prost fjórum sinnum.

Hamilton hefur unnið titilinn þrisvar og keppir að því að vinna hann einnig í ár. Á hann alla möguleika á að komast upp að hlið Prost eða jafnvel fram úr í mótunum þremur sem eftir eru keppnistíðarinnar í ár.

Lewis Hamilton fremstur á leið út úr fyrstu beygju í …
Lewis Hamilton fremstur á leið út úr fyrstu beygju í Austin. AFP
Lewis Hamilton ók óaðfinnan- og örugglega til sigurs í Austin, …
Lewis Hamilton ók óaðfinnan- og örugglega til sigurs í Austin, í fjórða sinn á fimm árum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert