Hamilton fljótastur á fyrsta prófi

LewisHamilton ók hraðast á fyrsta reynsluakstri formúluliðanna á árinu í Barcelona í dag. Næst fljótastur varð SebastianVettel hjá Ferrari en hann var efstur á lista yfir hröðustu hringi við hádegishlé.

Hamilton tók við Mercedesfáknum á hádegi en fram að hléinu ók nýr liðsfélagi hans, Valtteri Bottas. Besti hringur Hamiltons mældist 1:21,765 mínútur á mjúkdekkjum en það er betri tími en ráspólstími Spánarkappakstursins í fyrra.

Vettel var aðeins tíunda úr sekúndu lengur með hringinn en hann ók best á 1:21,878 mín. Ók hann fleiri hringi en nokkur annar, eða 126. Hamilton lagði 73 hringi að baki en næstflesta hringina ók Felipe Massa hjá Williams, eða 103. Massa átti þriðja besta hring dagsins, 1:22,076 mín.

Fernando Alonso hjá McLaren hafði aðeins ekið einn hring í morgun er bilun kom upp í olíukerfi bílsins sem kallaði á gagngera yfirhalningu. Komst hann því ekki út í brautina fyrr en síðdegis og náði aðeins 29 hringjum í það heila.

Red Bull bíll Daniels Ricciardo nam sömuleiðis staðar í brautinni í morgun vegna bilana í skynjurum vélarinnar.  Gat hann ekið eftir hádegi og átti á endanum fimmta besta tímann, 1:22,926 mín.

Næstur á undan honum varð Kevin Magnussen á Haas á 1:22,894 mín. Bottas náði sjötta besta tímanum eftir 79 hringi, 1:23.169 mín. Hálfri sekúndu lengur varð Sergio Perez á Force India á 1:23,709 mín. Carlos Sainz á Toro Rosso ók á 1:24.494 og Nico Hülkenberg á Renault á 1:24,784 en í bílum þeirra er eins vél, frá Renault. Alonso ók á 1:24.852 og restina rak Marcus Eriksson á Sauber á 1:26,841 mín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert