Ætla að koma báðum bílum í mark

Fernando Alonso segist binda vonir sínar við að báðir McLaren-bílarnir komist alla leið í mark í rússneska kappakstrinum um næstu helgi.

Alonso kveðst vongóður um að þetta rætist vegna jákvæðs árangurs við bílprófanir í framhaldi af kappakstrinum í Barein. Þá munu vélamenn Honda vera með uppfærslur fyrir keppnina í Sotsjí sem eiga að bæta endingartraust bílanna.

Aðeins einu sinni hefur McLarenbíll náð á endamark í keppni í ár, en það var 13.sæti  Stoffels Vandoorne í kappakstrinum í Melbourne. Var hann þó tveimur hringjum á eftir toppmönnunum.

Alonso taldist hafa klárað keppni í Barein en hann ók þó inn í bílskúr og hætti er tveir hringir voru eftir vegna bilunar í vél. Hann býst við betra gengi í Sotsjí.

„Það væri jákvætt fyrir okkur fyrst af öllu að klára á báðum bílum í Sotsjí. Við höfum átt við bilanir að glíma síðustu helgar, en ég fylgdist með reynsluakstrinum í Barein og er ánægður með hvað tókst að afla mikilla tæknigagna bæði um bílinn og vélrásina,“ segir Alonso.

„Allur mannskapurinn hjá McLaren og Honda slær hvergi af í vinnu sinni sem miðar að því að við náum framförum sem skjótast. Þess vegna var síðasti dagurinn í Barein jákvæður fyrir okkur. Vonandi kemur það sem þar aflaðist sér vel í næstu mótum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert