Ricciardo bestur í ringulreiðinni

Daniel Ricciardo hjá Red Bull var í þessu að vinna kappaksturinn í Bakú í Aserbaíjan sem einkenndist af ringulreið frá upphafi til enda. Valtteri Bottas hjá Mercedes náði á síðustu hundrað metrunum að smeygja sér fram fyrir nýliðann Lance Stroll hjá Williams, sem komst í fyrsta sinn á verðlaunapall.

Öryggisbíll var sendur ítrekað út í brautina vegna braks úr bílum sem fallið hafði í brautina við samstuð bíla. Brautarstarfsmenn sáust hlaupa hér og þar inn fyrir öryggisgirðingarnar og reyna tína upp brot en afköstin voru lítil og brakið út um allt.

Á endanum fór keppnisstjórnin að ráðum Fernando Alonso hjá McLaren sem lagði til að keppnin yrði stöðvuð enda bílarnir ekki gerðir fyrir svo hægan akstur lengi sem öryggisbíllinn hefur í för með sér. Var hann þá búinn að koma þrisvar út.

Fyrstu stig McLaren

Kappaksturinn markaði annars tímamót fyrir Alonso og McLaren því með níunda sæti færði hann liði sínu fyrstu keppnisstigin á árinu.

Fyrir utan hinn markverða árangur hins unga Kanadamanns Stroll, sem er yngsti ökumaðurinn til að standa á verðlaunapalli í formúlu-1, verður kappakstursins í Bakú fyrst og fremst minnst fyrir furðulega rimmu titilkandídatanna Sebastian Vettel og Lewis Hamilton meðan öryggisbíllinn var öðru sinni í brautinni.

Hiti og harka í toppslagnum

Á leið inn í beygju „bremsuprófaði“ Hamilton keppinaut sinn sem var rétt á eftir og hafði ekki svigrúm til að sleppa frá samstuði. Reiddist Vettel framferði Hamiltons mjög, ók upp að hlið hans og steytti hnefann. Missti hann alveg stjórn á sér og lagði til mótherjans með því að sveigja að honum og rekast utan í hann.

Eftir langa yfirlegu ákváðu eftirlitsdómarar kappakstursins að refsa einungis Vettel. Þurfti hann að fara inn að bílskúr og taka þar út 10 sekúndna stoppvíti. Á þeim tíma var hann í forystu í kappakstrinum. Tveimur til þremur hringjum áður varð Hamilton að halda inn að sínum bílskúr og fá nýja hjálmvörn þar sem sú er fyrir var missti festu. Hafði Vettel tekist að bæta ferðina það mikið meðan Hamilton fór inn að Ferrarifákurinn kom að nýju út í brautina skammt á undan. Á endanum varð Vettel fjórði og Hamilton fimmti.

Í fótspor Villeneuve

Til fróðleiks má þess geta, að Stroll er fyrsti kanadíski ökumaðurinn til að komast á pall í formúlu-1 frá því Jacques Villeneuve stóð þar á árinu 2001. Varð sá heimsmeistari ökumanna með Williams, sama liði og Stroll þreytir frumraun sína í formúlunni með.

Eftir kappaksturinn í Bakú hefur forysta Vettels í titilslagnum aukist í 153 stig og Hamilton er með 139. Þriðji er Bottas með 111 stig, fjórði Ricciardo með 92 og fimmti Räikkönen með 73. 

Í keppni liðanna er Mercedes með forystu á 250 stigum, en Ferrari hefur fengið 226 og Red Bull 137. Hafa nú öll liðin unnið stig og 17 ökumenn af 22 sem keppt hafa til þessa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert