Vettel: Hamilton hefði átt að fá víti líka

Sebastian Vettel sparaði ekki gagnrýnina á Lewis Hamilton eftir kappaksturinn í Bakú í dag og sömuleiðis fengu dómarar mótsins sinn skerf fyrir að hafa ekki dæmt hinn enska keppinaut sinn einnig til refsingar.

Hamilton og Vettel voru í fyrsta og öðru sæti og að undirbúa sig öðru sinni undir endurræsingu í kjölfar þess að öryggisbíll var kallaður út í brautina. Tókst þá ekki betur til en svo að Vettel rakst aftan á bíl Hamilton á leið út úr 15. beygju brautarinnar í Bakú.

Vettel brást ókvæða við akstursframferði Hamiltons, ók Ferrarifáknum upp að hlið hans og renndi sér inn í Mercedesbílinn. Skullu bílarnir saman. Var Vettel gert að taka út 10 sekúndna stoppvíti fyrir „hugsanlega hættulegan akstur“ með því að keyra inn í bíl Hamiltons.

Vettel vann sig á endanum upp í fjórða sæti og kom í mark einu sæti á undan Hamilton sem tafðist í förum er hann neyddist til að koma inn að bílskúr og fá nýja öryggishlíf á stjórnklefann í stað þeirrar sem losnaði upp. Var hann óvæginn í garð Hamiltons.

„Ég held þetta hafi verið afar augljóst,“ sagði Vettel spurður hvort hann teldi Hamilton hafa verið að „bremsuprófa“ hann. „Ég ek ekki inn í afturenda bíls af ásetningi . . . framvængur minn skemmdist, og lítilsháttar skemmdir urði á hans bíl einnig, ekkert þó sem hafði áhrif á keppnina.

Svona eiga menn ekki að gera, hann hefur gert þetta áður. Eftir mjög góða fyrri endurræsingu þar sem hann kom mér á óvart og skaust í burtu finnst mér hann ekki þurfa gera þetta. Vandinn er sá að ég er fyrir aftan að gera mig kláran og allir hinir bílarnir og því verður keðjuverkun. Hann gerði álíka hluti í kínverska kappakstrinum fyrir tveimur árum. Svona eiga menn ekki að hegða sér. Við erum allir fullorðnir menn og tilfinningar stríðar í keppni. Við viljum  keppa í návígi en ekki í endurræsingunni.“

Vettel sagði að sér fyndist sem Hamilton hefði átt líka að fá refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert